Lögregla segir IRA bera ábyrgð á bankaráninu í Belfast

Lögreglubíll utan við Northern Bank í Belfast þar sem bankaránið …
Lögreglubíll utan við Northern Bank í Belfast þar sem bankaránið var framið. AP

Yfirmaður lögreglunnar á Norður-Írlandi sagði í dag að Írski lýðveldisherinn (IRA) bæri ábyrgð á bankaráni, sem framið var nýlega í Belfast en ræningjarnir höfðu á brott með sér jafnvirði rúmlega 2,6 milljarða króna. Búist hafði verið við þessari yfirlýsingu en IRA sór af sér aðild að ráninu í áramótaávarpi sem samtökin sendu frá sér.

IRA eru helstu samtök herskárra kaþólikka á Norður-Írlandi og er þessi yfirlýsing lögreglunnar alvarlegt áfall fyrir bresk og írsk stjórnvöld, sem hafa reynt að koma á varanlegu pólitísku samkomulagi milli mótmælenda og kaþólikka þar.

Hugh Orde, yfirmaður lögreglunnar á Norður-Írlandi, sagðist telja ljóst að IRA bæri ábyrgð á ráninu og byggði það á vísbendingum og upplýsingum sem lögreglan hefði aflað. Hann upplýsti hins vegar ekki nánar í hverju þessar vísbendingar fælust en aðferðin við ránið þótti minna mjög á aðferðir sem IRA hefur beitt. Voru fjölskyldur tveggja yfirmanna Northern Bank í Belfast í gíslingu og yfirmennirnir þannig neyddir til að opna fjárhirslur bankans.

Talsmaður Tonys Blairs, forsætisráðherra Bretlands, sagði að Blair tæki þessar upplýsingar alvarlega. „Hann hefur ítrekað sagt það á undanförnum tveimur árum, að ekki sé hægt að endurreisa stjórnmálastofnanir á Norður-Írlandi nema vopnaðir flokkar hætti allri starfsemi og það á einnig við um glæpastarfsemi," sagði talsmaðurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert