30 hafa látið lífið af völdum hita í Evrópu

Fólk kælir sig í laugum við Eiffelturninn í París í …
Fólk kælir sig í laugum við Eiffelturninn í París í dag. Reuters

Íbúar fjölmargra Evrópulanda hafa verið hvattir til þess í dag að kæla sig niður og forðast sólina, en 30 eru nú sagðir hafa látið lífið af völdum hitabylgjunnar sem nú gengur yfir vesturhluta álfunnar. Ekkert lát virðist ætla að verða á hitanum, þar sem spáð er svipuðum hita næstu vikuna.

Í Frakklandi er 21 sagður hafa látið lífið vegna hita, þeirra á meðal 15 mánaða gamalt barn. Frá byrjun þessarar viku hafa því 30 látið lífið vegna hita í Vestur-Evrópu, samkvæmt tölum frá heilbrigðisstofnunum. Tveir létust á Spáni. 168 dóu umfram meðaltalsdánartíðni í Hollandi, sem rakið er til hitabylgjunnar. Ekki má þó beinlínis halda því fram að fólk deyi úr hita, heldur látist fólk sem veikt er fyrir vegna álags af völdum hitans.

Búist er við því að hitinn nái 38 gráðum í austanverðu Frakklandi í dag í Rínardalnum. Franska veðurstofan hefur ráðlagt fólki að loka gluggum og hafa hlera fyrir þeim á daginn, fara oft í sturtu, drekka 1,5 lítra af vatni hið minnsta og vera a.m.k. í þrjár klukkustundir á dag á loftkældum stöðum.

Fyrir þremur árum, sumarið 2003, létust 15.000 af völdum hita í Frakklandi og tvöfalt það í Evrópu allri. Í Bretlandi er ekki eins heitt og var í gær en þó 32 gráður í Lundúnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert