Ófremdarástand sagt ríkja á Heathrow

Farþegar bíða utan við Terminal 3 á Heathrow flugvelli í …
Farþegar bíða utan við Terminal 3 á Heathrow flugvelli í London í dag. AP

Breska flugfélagið British Airways (BA) gagnrýndi framkvæmd hertra öryggisreglna á Heathrow flugvelli í London harkalega í dag en yfirstjórn flugvallarins (BAA) tilkynnti í morgun að aflýsa yrði þriðjungi allra fyrirhugaðra brottfara frá flugvellinum í dag vegna tafa við öryggiseftirlit.

Willie Walsh, framkvæmdastjóri BA, segir félagið hafa neyðst til að afboða 25% farþega sinna og fljúga farþegalausum flugvélum í dag. “Við erum tilbúin og fær um að fljúga samkvæmt áætlun um London Heathrow. Við höfum nægt mannafl bæði um borð og á jörðu niðri og flugvélarnar eru til staðar,” sagði hann. “Starfsfólk okkar stendur sig frábærlega miðað við aðstæður. BBA er hins vegar ófært um að veita rösklegt öryggiseftirlit með farþegum og farangri á London Heathrow og því þurfum við að aflýsa flugferðum og senda aðrar flugvélar af stað án nokkurra farþega. Farangursöryggiseftirlit flugvallarins hefur ekki undan og þegar farþegum tekst loks að tékka farangur sinn inn, bíða þeirra langar raðir á öryggissvæði flugvallarins sem gera það að verkum að þeir komast ekki að brottfararhliðunum í tæka tíð.”

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert