Tækniörðugleikar valda töfum á kjörfundum í Bandaríkjunum

Forritunarvillur og reynsluleysi starfsfólks hefur valdið nokkrum töfum á kjörfundum víða í Bandaríkjunum, þar sem þingkosningar fara fram í dag. Snertiskjáir og rafrænir kjörseðlar hafa ekki virkað sem skyldi, og í mörgum ríkjum hefur verið gripið til hefðbundinna pappírsseðla í staðinn. Einnig hafa rafrænar kjörskrár valdið erfiðleikum.

Víða hefur kjörfundur verið framlengdur um nokkra tíma af þessum sökum, og langar biðraðir hafa myndast á kjörstöðum. Fyrirtæki sem framleiða kosningavélar segja þó að bilanir hafi ekki orðið meiri en við hafi mátt búast, og að í flestum tilfellum hafi vandræðin stafað af vankunnáttu.

Ekki er reiknað með að kosningaþátttaka verði nema um 40%, og skoðanakannanir hafa bent til að úrslit verði tvísýn. Demókratar þurfa að bæta við sig 15 sætum í fulltrúadeild og sex í öldungadeild til að hafa meirihlutann af repúblíkönum. Fréttaskýrendur segja að úrslit í Indiana, Kentucky og Flórída muni ráða miklu um hvort svo fari.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert