Eiginkona Chiracs segir hann íhuga framboð þriðja kjörtímabilið

Bernadette Chirac segir eiginmann sinn enn mjög vinsælan meðal frönsku …
Bernadette Chirac segir eiginmann sinn enn mjög vinsælan meðal frönsku þjóðarinnar. AP

Bernadette Chirac, eiginkona Jacques Chirac Frakklandsforseta, segir að eiginmaður sinn sé að íhuga að bjóða sig fram þriðja kjörtímabilið í röð. Í viðtali í tímaritinu Nouvel Observateur sagði forsetafrúin að forsetinn sé enn gríðarlega vinsæll á meðal þjóðar sinnar, og að hann muni tilkynna snemma á næsta ári hvort hann bjóði sig fram í forsetakosningunum sem fara fram í apríl og maí. Þá sagði hún forsetann vera „í frábæru formi“ en hann er orðinn 73 ára gamall.

„Hver svo sem ákvörðun hans verður, þá skiptir hún gríðarlegu máli, en þetta er hans ákvörðun. Þetta er ákvörðun eins manns, ekki pars,“ sagði Bernadette.

Forsetinn var á sjúkrahúsi í eina viku á síðasta ári og gerðu margir að því skóna að heilsu forsetans hefði hrakað mikið. Fáir spá því að hann muni bjóða sig fram á næsta ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert