Eiginmaðurinn pantaði leigumorðingja tímanlega fyrir jólin

Santhosh Paul, 31 árs Bandaríkjamaður af indverskum ættum, hefur verið kærður fyrir að ítrekað hafa reynt að ráða leigumorðingja til að ráða eiginkonu sína af dögum en hún trúir ekki að hann myndi gera slíkt. Paul vildi hraða verkinu til að geta syrgt hana fyrir jólahátíðina.

Paul mun hafa reynt að ráða vin sinn til verksins en vinurinn neitaði og lét lögregluna vita af ráðabrugginu. Lögreglan í Nassau héraði skipulagði síðan fund með Paul og óeinkennisklæddum lögreglumanni sem lést vera leigumorðingi.

Paul tók þriggja ára son þeirra hjóna með á fundinn og bauð lögreglumanninum 200 þúsund Bandaríkjadali fyrir að stinga konu sína í hjartað með hnífi. Hann greiddi 2,700 dali í tryggingu og framvísaði afriti af líftryggingu konunnar upp á eina milljón dali til að sanna að hann myndi geta greitt upphæðina.

Lögmaður Paul sagði að hann héldi fram sakleysi sínu og að konan tryði ekki orði af ákærunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert