Myndir af aftöku Saddam teknar með síma

Böðlar undirbúa aftöku Saddams Husseins.
Böðlar undirbúa aftöku Saddams Husseins. Reuters

Myndskeið af aftöku Saddams, sem tekið var með myndavélarsíma, hefur birst á arabískum netsíðum og á netgáttum víðar í heiminum. Arabíska sjónvarpsstöðin Al-Jazeera hefur einnig sýnt myndskeiðið. Þar heyrist að þeir sem voru viðstaddir aftökuna hæddu Saddam en hann virðist hafa brosað og sagt að þetta væri ekki stórmannlegt. Þá fór hann með vers úr Kóraninum meðan verið var að undirbúa aftökuna.

Hljóð fylgir upptökunni og má heyra viðstadda kalla „Moqtada, Moqtada, Moqtada." Eru þeir að vísa til síja-klerksins herskáa Moqtada al-Sadrs en faðir hans, Mohammed Bakr Sadr, og frædi voru myrtir af útsendurum Saddams á sínum tíma.

Einn úr hópnum hrópar: „Lengi lifi Mohammed Bakr Sadr!" Hljóðið er ógreinilegt en Saddam virðist svara: „Farðu til helvítis."

Á myndbandinu sést þegar hlerinn í gálganum opnast og Saddam hangir í snörunni. „Harðstjórinn er fallinn," kallar einhver. Á myndbandinu sést andlit Saddams síðan og önnur rödd segir: „Látið hann hanga í þrjár mínútur."

Á myndbandi frá íraska ríkissjónvarpinu, sem sýnt var víða í gær, sést þegar böðlar með skíðagrímur undirbúa Saddam fyrir aftökuna. Ekkert hljóð er hins vegar á því myndbandi.

AP fréttastofan segir, að það merkilegasta við þessar myndir sé ef til vill að þær sýni hve Saddam var rólegur og yfirvegaður undir lokin.

Saddam er sagður hafa óskað eftir því að verða leiddur fyrir aftökusveit og skotinn, þar sem hann væri yfirmaður íraska hersins. Hann var hins vegar dæmdur til dauða með hengingu.

Breska ríkisútvarpið, BBC, spurði einn sjónarvott hvort Saddam hefði þjáðst en fékk það svar að hann hefði látist samstundis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert