Brixtofte í 2 ára fangelsi

Peter Brixtofte.
Peter Brixtofte. Reuters

Eystri Landsréttur í Danmörku dæmdi í dag Peter Brixtofte, fyrrum borgarstjóra í Farum, í tveggja ára óskilorðsbundið fangelsi fyrir fjárdrátt í opinberu starfi. Ekki er hægt að áfrýja dómnum, að sögn danskra fjölmiðla.

Brixtofte, sem er 57 ára, var fundinn sekur um að hafa látið bæjarsjóð Farum greiða verktakafyrirtækinu Skanska 9 milljónum danskra króna of hátt verð fyrir verk á vegum bæjarins. Á móti greiddi Skanska 10 milljónir danskra króna til að styrkja handboltaliðið Ajax-Farum. Það lið var einskonar dótturlið íþróttafélagsins Farum Boldklub en Brixtofte var þar formaður og hluthafi.

Héraðsdómur í Hillerød dæmdi Brixtofte í 2 ára fangelsi í sumar vegna málsins. Brixtofte áfrýjaði dómnum og krafðist sýknu. Þrír aðrir menn hlutu skilorðsbundna fangelsisdóma, þar á meðal fyrrum forstjóri Skanska, sem viðurkenndi að hafa gert samning við Brixtofte um að rukka bæjarsjóð Farum um of háa upphæð fyrir verk svo Skanska gæti styrkt handboltafélagið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert