Dönsk yfirvöld setji umburðarlyndinu mörk

Börn ólöglegra bandarískra innflytjenda krefjast réttar síns.
Börn ólöglegra bandarískra innflytjenda krefjast réttar síns. AP

Nefnd um betri aðlögun fólks af erlendum uppruna að dönsku samfélagi hefur hvatt sveitarfélög og önnur yfirvöld í landinu til að gera það upp við sig hvar þau vilji að mörk umburðarlyndisins liggi og hversu langt þau séu tilbúin til að ganga í því að fórna grundvallargildismati vestrænnar menningar fyrir persónu- og tjáningarfrelsið. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

Nefndin telur til dæmis ekki ásættanlegt að sjálfstæðir atvinnurekendur láti karlar ganga fyrir konum í laus störf og að fólk geti krafist þess að njóta þjónustu sérfræðinga af saman kyni þegar það leitar til læknis og annars sérfræðings.

Hugmyndir nefndarinnar, sem kynntar eru í nýrri skýrslu hennar þykja mikil breyting frá þeirri stefnu danskra yfirvalda að stuðla aða aðlögun fólks af erlendum uppruna með því að bjóða því upp á menntun og sem jöfnust tækifæri á við aðra.

Í skýrslunni kemur m.a. fram að 92% íbúa Danmerkur, sem eru af íröskum uppruna, hafa andúð á samkynhneigðum og að 50% íbúa landsins sem eru af tyrkneskum uppruna líta svo á að karlar eigi að ganga fyrir konum varðandi ráðningar í laus störf.

„Fólk þarf að gera það upp við sig á hvað það vill leggja áherslu í sambandi við aðlögun. Þurfa múslímar að vera reiðubúnir til að vinna með samkynhneigðum og hvernig á kennari að bregðast við því þegar foreldrar segja að menntun sonar þeirra sé mikilvægari en menntun dótturinnar,” segir Per B. Christensen, sérfræðingur nefndarinnar varðandi börn og listir.

Søren Harnow Klausen, prófessor í heimspeki við Syddansk Universitet, varar hins vegar við því að laga og reglusetningar ýti undir kröfur um að minnihlutahópar líti hlutina sömu augum og meirihluti landsmanna. „Rétturinn til sjálfstæðra skoðana er jafnvel enn mikilvægari en tjáningarfrelsið og komi fram krafa um það að fólk þurfi að hafa ákveðnar skoðanir til að verða fullgildir þátttakendur í samfélaginu erum við á leið í átt tilskoðanaharðræðis,” segir hann.

Rikke Hvilshøj, ráðherra innflytjenda og aðlögunarmála í Danmörku hefur ekki tjáð sig um skýrsluna að öðru leyti en því að hún segist ekki geta sætt sig við það að hópi kvenna í dönsku samfélagi sé meinað að taka þátt í samfélaginu á jafnréttisgrundvelli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert