Fræðsluvef BBC lokað vegna kvartana frá framleiðendum fræðsluefnis

BBC Trust, tólf manna nefnd sem hefur yfirumsjón með breska ríkissjónvarpinu, hefur tilkynnt að fræðsluvef stofnunarinnar, BBC Jam, verði lokað þann 20. mars næstkomandi, þar sem aðilar sem hafa tekjur af því að framleiða fræðsluefni fyrir netið hafa lagt fram kvartanir til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

Vefurinn var opnaður í janúar á síðasta ári, BBC hafði lagt fram 150 milljónir punda, eða sem svarar til tæplega tuttugu milljarða íslenskra króna til þróunar á vefnum, og hefur um helmingi þess fjár þegar verið eytt.

Breska ríkisstjórnin samþykkti gerð vefjarins í janúar árið 2003, tilgangur hans var að þjóna sem fræðslutæki fyrir ungmenni á aldrinum fimm til 16 ára og var aðgengilegur öllum netnotendum í Bretlandi. 170.000 manns eru skráðir notendur að vefnum, en þar sem skráningar er ekki krafist er ómögulegt að segja til um hve margir notendurnir eru í raun og veru.

Chitra Bharucha, formaður nefndarinnar hefur beðið notendur BBC Jam afsökunar, og beðið stjórn BBC um að koma með nýjar tillögur að því hvernig BBC geti uppfyllt hlutverk sitt, sem er m.a. að styða formlega menntun og nám og koma til móts við þarfir skólabarna á netinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert