Forsetinn líti yfir axlirnar á þingheimi

Baldur Þórhallsson, forsetaframbjóðandi, segist brenna fyrir mannréttindum og alþjóðamálum.

Hann segir forsetann þó þurfa að líta til með Alþingi og sýna að samþykkt laga sé ekki færibandavinna.

Baldur er nýjasti gestur Spursmála þar sem hann er spurður út í það hvað drífi hann áfram og til þeirrar ákvörðunar að bjóða sig fram til forseta Íslands.

Innri köllun?

Hvað er það sem drífur þig áfram í framboð sem þetta? Það geta ekki bara verið áskoranirnar, það verður að vera einhver innri köllun, ekki satt?

„Jú, mikið rétt hjá þér. Ég hef verið t.d. að vinna mikið að mannréttindamálum í yfir 30 ár og það hefur verið...“

Á hvaða vettvangi hefur það verið?

„Það hefur verið á vettvangi Samtakanna 78, hinsegin málefna. Ég hef einnig unnið að jafnréttismálum innan Háskóla Íslands, ég var líka um tíma á vegum Mannréttindaskrifstofu Íslands, þannig að það er verið að sinna mannréttindum allra í samfélaginu, sem ég legg áherslu á. Ég brenn líka mikið fyrir alþjóðamálum eins og við höfum rétt hérna hjá þér. Og það hefur eiginlega aldrei verið vandasamara, að minnsta kosti ekki svona vandasamt í marga áratugi að vera lítil ríki í þessum heimi stríðsátaka. Og mig langar einfaldlega til að bjóða fram mína þekkingu, hvernig lítil ríki geta tryggt hagsmuni sína og látið til sín taka.“

Samspil valds forseta og Alþingis er til umræðu í nýjasta …
Samspil valds forseta og Alþingis er til umræðu í nýjasta þætti Spursmála. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Leggist á árarnar með þinginu

Og það er hlutverk forsetans að þínu mati en ekki bara forsætisráðherrans og þeirra sem mynda þingmeirihlutann eða sitja á þingi á hverjum tíma.

Baldur Þórhallsson er nýjasti gestur Spursmála.
Baldur Þórhallsson er nýjasti gestur Spursmála. mbl.is/María Matthíasdóttir

„Forseti á að leggjast á árarnar með stjórnvöldum að tryggja hagsmuni Íslands og láta gott af okkur leiða. Það í raun að hver sem gegni embættinu tali erlendis, þegar hann talar á loftslagsráðstefnum eða hafréttarráðstefnum þá er á hann hlustað. Mér finnst að það megi jafnvel nýta þetta meira til þess að vera í liði með stjórnvöldum.“

Guðni staðið sig vel

Finnst þér Guðni ekki hafa gert nægilega mikið í því?

„Jú hann hefur staðið sig mjög vel hvað þetta varðar.“

En þú segir að það megi gera meira af því.

„Já, ég lít svolítið til Ólafs Ragnars í þessu. Hvað Ólafur var skeleggur talsmaður okkar í alþjóðamálum. Guðni hefur t.d. einbeitt sér að lýðheilsumálum og velferð allra í samfélaginu. Allir forsetar hafa sína forgangsröðun. Það er eitt af því sem mér finnst mjög mikilvægt, það er að forgangsraða. Og bara svo ég nefni síðast, því þú spyrð hver er köllunin. Það er að sinna mannréttindum allra í samfélaginu, það eru alþjóðamálin, að leggjast á árarnar með stjórnvöldum og mér finnst líka að bóndinn á Bessastöðum eigi að líta yfir axlirnar á þingheimi til þess að þingheimur telji ekki að það sé bara sjálfkrafa afgreiðsla á lögunum sem lenda til undirskriftar hjá forseta.“ 

Viðtalið við Baldur má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert