„Alvarlegar staðreyndavillur“ til skoðunar

Baldvin Þór Bergsson, ritstjóri Kastljóss, segir málið á borði skrifstofustjóra …
Baldvin Þór Bergsson, ritstjóri Kastljóss, segir málið á borði skrifstofustjóra RÚV. Samsett mynd/Skjáskot/Sigurður Bogi

„Ég get sagt það að eitt er að gera athugasemd við umfjöllun og annað er að segja að um sé að ræða staðreyndavillur. Ég held að fólk þurfi að átta sig á því.“

Þetta segir Baldvin Þór Bergsson, ritstjóri Kastljóss, inntur eftir viðbrögðum við tilkynningu Reykjavíkurborgar um að alvarlegar staðreyndavillur hafi verið í umfjöllun Maríu Sigrúnar Hilmarsdóttur um samninga borgarinnar við olíufélög um uppbyggingarreiti.

Í samtali við mbl.is segir Baldvin málið vera á borði skrifstofustjóra RÚV sem skoði hvort um raunverulegar staðreyndavillur sé að ræða. Leiði skoðun í ljós að svo sé verði þær að sjálfsögðu leiðréttar.

Greindi Baldvin Vísi frá því í gær að hann sæi ekki sem svo að neinar staðreyndavillur væru í umfjölluninni.

Beint upp úr fjárfestakynningu Haga

Spurður um fullyrðingar borgarinnar um að verðmat á byggingarrétti Haga fyrir bensínstöðvalóðirnar hafi verið 1,2 milljarðar, en ekki 3,9 milljarðar eins og skilja mátti í þættinum, segir Baldvin umfjöllunina vitna í fjárfestakynningu Haga.

„Í innslaginu segir ekki að þessi tala sé eingöngu vegna bensínstöðvalóða. Það bara kemur ekki fram í innslaginu. Ef að svo væri, þá væri það staðreyndarvilla en það er bara ekki textinn í innslaginu,“ segir Baldvin, en Reykjavíkurborg sagði að inn í 3,9 milljarða tölunni væri m.a. verðmæti lóða í Norður-Mjódd, við Klettagarða og við Nýbýlaveg.

Ítrekar Baldvin að komi í ljós að einhverjar staðreyndavillur hafi verið í umfjölluninni verði þær leiðréttar. 

„Þangað til ætla ég ekkert að tjá mig meira um þetta til að viðhalda þessum asnalega fréttahring,“ segir Baldvin að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert