Ráðgátan um Mathöll Reykjavík

Svona leit Vesturgara 2 út sumarið 2021 þegar áform um …
Svona leit Vesturgara 2 út sumarið 2021 þegar áform um mathöll voru kynnt. Síðan hefur háum fjárhæðum verið eytt en mathöllin er enn óopnuð. mbl.is/sisi

Óvíst er hvaða starfsemi verður í sögufrægu húsi að Vesturgötu 2 í miðborg Reykjavíkur. Stór áform um glæsilega mathöll eru komin á ís eftir að eigandi hússins sagði upp leigusamningnum við forsvarsmann þess verkefnis, Quang nokkurn Le, sem í dag kallar sig Davíð Viðarsson.

Davíð situr nú í gæsluvarðhaldi ásamt bróður sínum og eiginkonu vegna gruns um mansal, peningaþvætti, skipulagða brotastarfsemi og brot á atvinnuréttindum útlendinga. Meðal veitingastaða í hans eigu voru Wok on og Pho Vietnam. Eigandi hússins metur nú hver næstu skref verða.

Kaffi Reykjavík áður í húsinu

Þekkt er að Íslendingar eiga það til að taka hlutina föstum tökum þegar þeir fá á annað borð áhuga á þeim. Mathallir urðu fyrir nokkrum árum það allra heitasta og því kipptu ekki margir sér upp við það þegar sumarið 2021 var tilkynnt að ein slík yrði opnuð að Vesturgötu 2.

Þar hafði árin á undan verið rekinn veitingastaðurinn Restaurant Reykjavík og Microbar í kjallaranum. Á árum áður var Kaffi Reykjavík í sama húsi. Nýja mathöllin fékk nafnið Mathöll Reykjavík, Food Hall Reykjavík. Hún var kynnt til sögunnar sem „ein glæsilegasta mathöll landsins“ í heilsíðuauglýsingu í Morgunblaðinu og var sagt að húsnæðið yrði algjörlega endurnýjað og aðstaðan fyrsta flokks. Athygli vakti að auglýsingin var bæði á íslensku og ensku.

Átti að hýsa fjórtán veitingastaði

Alls áttu 14 veitingastaðir að vera í mathöllinni. „Mikill sjarmi er yfir öllum rýmum og aðstaða gesta björt og falleg. Glæsilegar svalir á efri hæð, ásamt útisvæði til suðurs munu skapa fallega stemningu,“ sagði í auglýsingunni þar sem óskað var eftir áhugasömum rekstraraðilum. Buðust þeim „góð kjör og fjármögnun“ kysu þeir svo. „Hér er ALLT INNIFALIÐ sem þarf til veitingareksturs,“ sagði þar enn fremur.

Tæp þrjú ár eru nú liðin síðan þessi áform voru kynnt og ekkert hefur orðið af opnun mathallarinnar. Fram hefur komið á mbl.is að háum fjárhæðum hefur verið varið í endurgerð hússins og undirbúning. Sá kostnaður er talinn hlaupa á hundruðum milljóna króna.

Eigandi hússins er Fjelagið eignarhaldsfélag ehf. Það hefur engin tengsl við Davíð Viðarsson og tengda aðila að því er komið hefur fram í fréttum mbl.is. Stefán Árni Auðólfsson lögmaður er talsmaður Fjelagsins og segir hann við Morgunblaðið að verið sé að skoða hvaða starfsemi verði í húsinu. Líklegt verði að telja að hún verði í ætt við þá sem unnið hefur verið að. „Það er verið að skoða hvaða rekstur kemur þarna inn. Það eina sem liggur fyrir er að áfram verður lögð áhersla á staðsetninguna og sögulegt gildi hússins,“ segir Stefán.

Vesturgata 2 er sögufrægt hús. Það var byggt árið 1863 af C.P.A. Koch útgerðarmanni og var þá kallað Bryggjuhúsið. Vesturgata 2 hefur þá sérstöðu að vera núllpunktur borgarinnar. Við það eru öll götunúmer í borginni miðuð og talið út frá því til allra átta. Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á húsinu í gegnum tíðina. Þar hefur meðal annars verið heildsala, skrifstofur og ýmsar verslanir en veitingarekstur hin síðari ár.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert