Djúp hjólför rugla skynjarana

Langar raðir myndast gjarnan við Sæbraut í Reykjavík á álagstímum. …
Langar raðir myndast gjarnan við Sæbraut í Reykjavík á álagstímum. Til stendur að fjölga skynjurum til að hægt sé að stýra umferð betur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vegfarendur hafa kvartað undan því að umferðarljós við Sæbraut í Reykjavík verða iðulega rauð þótt engin umferð sé frá hliðargötum. Skynjarar eiga að nýtast við umferðarstýringu en á tveimur stöðum hafa þeir skemmst sökum þess að malbikið er orðið svo slitið. Vakin var athygli á þessu í íbúahópi Vesturbæjar í vikunni og vísað til svars frá Vegagerðinni.

„Það er ólag á tveimur skynjurum. Það er vegna álags því hjólfaradýptin er orðin það mikil. Kerfið virkar hins vegar áfram,“ segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar.

Mikil uppsöfnuð viðhaldsþörf

Hann segir að þetta megi rekja til skorts á viðhaldi en margoft hafi verið vakin athygli á svokallaðri viðhaldsskuld sem Vegagerðin þarf að glíma við. Hún sé orðin ansi drjúg og starfsmönnum takist ekki að sinna öllu því viðhaldi sem þeir vildu. Forgangsraða þurfi fjármunum.

Upplýsingafulltrúinn segir að umferðarstýringarkerfið á Sæbraut sé heildstætt. Þegar skynjarar detti út sé erfiðara að stýra því nákvæmlega en ella. Það skýri að grænt ljósi komi oftar á hliðargötur en kannski er þörf á. Hins vegar sé kerfið stillt þannig að það komi alltaf grænt við og við á þær götur, jafnvel þótt þar sé enginn bíll. Það sé til að gera ráð fyrir ýmsu ófyrirséðu, til að mynda ef fólk stöðvar bíla sína áður en kemur að skynjurum og fleiru slíku.

Munu fjölga skynjurum

Betri tíð er þó í vændum við Sæbraut að sögn G. Péturs. Fjölga á skynjurum verulega.

„Umferð hefur aukist verulega frá því þetta kerfi var sett upp. Við munum setja nýja skynjara við flest ljós til að geta stýrt þessu nákvæmar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert