Rannsaka drómasýki í hestum

Stofnaður var starfshópur á vegum hrossabændadeildar BÍ til að fara …
Stofnaður var starfshópur á vegum hrossabændadeildar BÍ til að fara yfir stöðu rannsókna á drómasýki í hestum hérlendis. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sonja Líndal, dýralæknir og hrossaræktandi á Lækjarmóti, fer fyrir starfshópi sem var stofnaður á vegum hrossabændadeildar Bændasamtaka Íslands, BÍ, til þess að fara yfir stöðu rannsókna hérlendis á drómasýki í hestum. 

„Hugmyndin er að reyna finna arfbera svo hægt sé að vinna markvisst að því í hrossarækt að eyða þessum genum út úr íslenska hrossastofninum,“ segir Sonja. 

Drómasýki í hestum lýsir sér þannig að hesturinn hengir haus og er óstöðugur á fótum. Talið er að örfá arfhrein folöld fæðist á hverju ári en eins og staðan er í dag er tíðnin óþekkt. 

Oftast greinilegt snemma á æviskeiðinni 

Ekki er skyldugt að tilkynna sjúkdóminn og því er erfitt að vita hve tíðni folalda sem fæðast með sjúkdóminn á hverju ári er í raun og veru. Algengast er að einkenni byrji að sjást snemma á æviskeiðinu. 

„Það er mjög sérstakt ef enginn hefur tekið eftir einkennum fyrr en hesturinn er fullorðinn, en kemur þó fyrir. Það hefur verið prófað að leyfa folöldum sem sýna einkenni að lifa og þau þroskast, dafna og lifa vel en það er erfitt að finna þessum hrossum hlutverk því fáir treysta sér til þess að temja hross sem sofnar í reið,“ segir Sonja.

Algengast að þau séu aflífuð 

Hún segir hesta með sjúkdóminn ekki vera kvalda og að folöld, eða hross, sem greinast með drómasýki lifi til þess að gera góðu lífi ef þau eru í öruggu umhverfi. Þau þroskast vel, en algengast er að þau séu aflífuð sem folöld þar sem erfitt er að finna þeim tilgang. 

Hestar á beit.
Hestar á beit. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er mjög erfitt að finna þeim hlutverk. Þeir sem sýna einkenni eru arfhreinir sem þýðir að öll þeirra afkvæmi myndu fá genið. Þá er mjög óæskilegt að nota þá til ræktunar. Þeir eru sjaldnast til reiðar og þá eru fá hlutverk eftir og það er fyrst og fremst þess vegna sem þau eru aflífuð,“ greinir Sonja frá. 

Grípa þarf í taumana 

Hún segir að drómasýki hafi vissulega ekki yfirtekið stofninn en hefur áhyggjur af framhaldinu ef ástandið verður óbreytt og þekktir arfberar ekki opinberaðir. Mörg þúsund heilbrigð folöld fæðast á ári hverju og eru örfá þeirra talin fæðast með drómasýki. Engu að síður er það tilfinning þeirra sem koma að hrossarækt að tíðnin fari vaxandi og því þarf að grípa í taumana. 

„Þetta er vissulega óhugnanlegt fyrir þá sem hafa aldrei hafa séð þetta, hvernig þau allt í einu sofna. Þau eru kannski á gangi og svo allt í einu sofna þau og verða óstöðug. En það er alveg hægt að vekja þau og þá ranka þau við sér og fara af stað.“ 

Áframhaldandi rannsóknir 

Rannsóknin á drómasýkinni verður framkvæmd með því að taka sýni fyrir erfðapróf. Sonja segir draumaniðurstöðu starfshópsins vera að finna þessi gen og útbúa próf sem allir stóðhestar þyrftu að vera prófaðir fyrir. Þyrfti prófið líka að vera aðgengilegt fyrir hryssueigendur.  

Hestar að kljást.
Hestar að kljást. mbl.is/Eggert

Væru þá arfberar opinberaðir og hægt væri að tryggja að ekki verið að para saman þá hesta sem eru arfberar og smám saman yrði geninu útrýmt. 

Heilbrigt hrossakyn 

Spurð hvort prófað sé fyrir öðrum sjúkdómum í hrossum segir Sonja að allir stóðhestar séu myndaðir fyrir spatti, sem er slitgigt í flötu liðum hækilsins, og þreifað eftir eistnagöllum. Allar þær upplýsingar eru opinberaðar. Hún segir annars að íslenski hesturinn almennt heilbrigt hrossakyn. 

Arfgerðagreiningarnar sem verið er að greina og vinna með hingað til byggjast fyrst og fremst á því að verið er að leita eftir einhverjum ákveðnum eiginleikum. Hvort að hestur beri gen til þess að geta skeiðað, til dæmis. Þá er verið að vinna að því að finna gen fyrir ákveðnum eiginleikum sem okkur finnast eftirsóknarverðir í hrossarækt. En nú tekst okkur vonandi að finna genið fyrir drómasýkinni sem gefur okkur upplýsingar til að vinna með í hrossarækt í framtíðinni, segir hún. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert