Stýrivextir Seðlabankans óbreyttir

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 9,25%.

Þetta kemur fram í tilkynningu.

Fram kemur í yfirlýsingu nefndarinnar að verðbólga hafi áfram hjaðnað, en hún mældist 6% í apríl.

Verðbólga án húsnæðisliðar hafi minnkað hraðar og undirliggjandi verðbólga sé komin í 5%. Verðbólguvæntingar hafi lækkað á suma mælikvarða en séu enn yfir markmiði.

„Hægt hefur á vexti innlendrar eftirspurnar enda er peningalegt taumhald þétt og horfur eru á að það dragi úr hagvexti í ár. Spenna í þjóðarbúskapnum er þó meiri en áður var talið og verðbólga minnkar því hægar samkvæmt nýrri spá Seðlabankans,” segir í yfirlýsingunni.

„Áhrif nýgerðra kjarasamninga og aðgerða í ríkisfjármálum á eftirspurn eru ekki að fullu komin fram. Þótt hægt hafi á vinnumarkaði er spenna enn til staðar sem gæti ýtt undir launaskrið með tilheyrandi áhrifum á verðbólgu.

Peningastefnunefnd telur auknar líkur á því að núverandi aðhaldsstig sé hæfilegt til þess að koma verðbólgu í markmið innan ásættanlegs tíma. Mótun peningastefnunnar mun sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.”

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK