„4-5% gólf sem við verðum bara að brjótast í gegnum“

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri telur það ekki réttmæta gagnrýni sem fram hefur komið um að vaxtastigið haldi verðbólgunni uppi að hluta. Þvert á móti sýni gögn að heimili og fyrirtæki séu að verja peningum í að greiða niður skuldir fremur en að fara í dýra lántöku.

Þá segir hann að lítil lækkun stýrivaxta hefði engu skipt á þessum tímapunkti. Hann vonast eftir því að það muni takast að ná ákveðnum markmiðum í hagkerfinu og gefur í skyn að hægt verði að fara í kröftuga lækkun ef hlutirnir ganga upp. 

Ekkert sem segir vexti halda uppi verðbólgu 

Nú hefur komið fram gagnrýni sem er þess eðlis að vaxtastigið sé beinlínis að halda uppi verðbólgunni þar sem hún fer út í verðlagið. Hvernig bregst þú við slíkum málflutningi? 

„Eins og peningastefnan virkar þá er núna einfaldlega dýrara að fá fjármagn en áður og við sjáum að fyrirtækin eru að taka minna af lánum. Þau eru að nota hagnaðinn í að greiða niður skuldir og þetta er nákvæmlega eins og þetta á að virka. Sama er með heimilin. Mögulega geta verið einhver hliðaráhrif þannig að fyrirtækin eru að velta vaxtastigi út í verðlagið. En það er þá til marks um skerta samkeppni,“ segir Ásgeir.  

„Ég hef einna helst heyrt þá gagnrýni að vaxtastefnan hamli lántöku við uppbyggingu nýs íbúðarhúsnæðis og að það leiði til minna framboðs eftir 2-3 ár. En það er voðalega erfitt fyrir okkur að gera eitthvað í því. Við höfum alltaf lagt áherslu á að fleiri beri ábyrgð á framboðshlið húsnæðismarkaðarins, enda hefur það verið áhersla ríkistjórnarinnar og  verkalýðsfélaga að hafa það þannig. Því er það vilji allra að framboðið sé nægt,“ segir Ásgeir.

Frá kynningarfundinum í dag.
Frá kynningarfundinum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Verðbólgan þarf að lækka raunverulega 

Hversu mikil eru áhrif þess á verðbólgu að Grindvíkingar eru stórtækir á húsnæðismarkaði um þessar?

„Það hefur talsverð áhrif. Við höfum séð að húsnæðisverð er að hækka,“ segir Ásgeir.

En er þetta ekki eins konar gerviverðbólga sem hefur einungis tímabundin áhrif eða verða ruðningsáhrifin kannski til mun lengri tíma?

„Ég er að vona að þetta muni ganga bara tiltölulega hratt yfir. Auðvitað vinnur þetta gegn því að verðbólgan fari hratt niður. En vandinn við að hafa háar verðbólguvæntingar er sá að við getum ekki lækkað vexti og vonað að verðbólgan gangi niður. Vegna þess að það er erfitt fyrir okkur að lækka vexti nema á grundvelli þess að verðbólgan hafi raunverulega farið niður. Háar verðbólguvæntingar sýna að fólk hefur ekki trú á því að við séum að ná markmiðum innan þess tímaramma sem við höfum gefið okkur. Ef fólk hefur ekki trú á því þá getum við ekki lækkað vexti á þessum tímapunkti,“ segir Ásgeir.

Erfitt að taka litla lækkun núna

Nú var þessi kjarasamningur gerður á almennum markaði og talað um hóflegar launahækkanir þar. Var þá engin freistnivandi að lækka vexti lítillega til að gefa þau skilaboð að við séum á réttri leið?

Jú, en ég lít á það þannig að ég trúi á rétta tímasetningu. Ég hef alltaf hugsað mikið um tímasetningar. Þær skipta máli. Það hefði verið erfitt að taka einhverja aumingjalega lækkun núna inn í umhverfi þar sem mjög margt er að gerast. Nýir kjarasamningar, háar verðbólguvæntingar og hækkun á fasteignaverði. Miklu betra er að bíða þannig að tímasetningin verði rétt til að beita peningastefnunni,“ segir Ásgeir.

Sérðu fyrir þér lækkun á stýrivöxtum í ágúst?

„Við verðum bara að sjá til. Eins og sjá má í spá Seðlabanka, þá má gera ráð fyrir því að verðbólgan verði ansi þrálát. Þarna er 4-5% gólf sem við verðum bara að brjótast í gegnum. Í ágúst verðum við búin að halda vöxtunum óbreyttum í 9,25% í heilt ár. Auðvitað vonar maður að forsendur verði til þess að slaka á, en það er óvíst,“ segir Ásgeir. 

0,25 punkta lækkun hefði engu skipt 

En nú erum við með 9,25% vexti og verðbólgan heilt yfir á niðurleið. Erum við ekki að dauðrota fiskinn?

„Við getum orðað það þannig að 0,25 punkta lækkun hefði engu skipt á þessum tímapunkti í heildar samhenginu. Það sem skiptir máli er að við náum ákveðnum markmiðum í peningastefnunni. Þannig að það sé skýrt fyrir alla hvert þjóðhagkerfið er að fara og að það sé á leiðinni í jafnvægi. Þá getum við farið í lækkun,“ segir Ásgeir.

Þannig að við gætum átt von á kröftugri lækkun þegar þar að kemur?

„Auðvitað erum við í mjög háum vöxtum. Við vildum senda mjög sterk skilaboð fyrir ári síðan þegar við hækkuðum um 1,25%. Á sama hátt munum við beita peningastefnunni þegar við náum tökum á verðbólgunni aftur,“ segir Ásgeir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK