Kristrún og Bjarni tókust hart á um efnahagsmálin

Kristrún Frostadóttir og Bjarni Benediktsson tókust á um efnahagsmálin á …
Kristrún Frostadóttir og Bjarni Benediktsson tókust á um efnahagsmálin á Alþingi fyrr í dag. Samsett mynd/mbl.is/Árni Sæberg

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, og Bjarni Benediktsson forsætisráðherra tókust hart á um efnahagsmálin í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi fyrr í dag.

Kristrún sagði Sjálfstæðisflokkinn hafa sagt skilið við öll prinsipp um ábyrg ríkisfjármál og þá sagði hún ríkisstjórnina hafa sett efnahagsmálin á hvolf.

„Við skulum bara tala hreina íslensku hérna. Ríkisfjármálin eru í ruglinu og hafa verið það árum saman, ósjálfbær og verðbólguvaldandi og þetta vita allir,“ sagði hún meðal annars en vísaði hún svo í Peningastefnunefnd ríkisins og álit Fjármálaráðs ríkisins um nýja fjármálaáætlun.

Buna af fullyrðingum sem standast ekki skoðun

Í álits­gerð fjár­málaráðs fyr­ir árin 2025-2029 kom fram að staða íslensks efnahagslífs væri góð en að ríkisútgjöld hefðu farið úr hófi fram. Einnig kom fram að tölur um aðhald í ríkisfjármálum væru ótrúverðugar þar sem þær væru óútfærðar.

Bjarni Benediktsson svaraði Kristrúnu fullum hálsi.

„Hér var löng buna af fullyrðingum sem fæstar standast nokkra skoðun,“ sagði Bjarni.

Hann sagði meiri hagvöxt vera á Íslandi en í nágrannaríkjum og að atvinnustig hér á landi væri hátt. Þá væri vaxandi kaupmáttur heimilanna og nýlega búið að undirrita fjögurra ára kjarasamninga.

Bjarni sagði þó enn of mikla spennu vera í hagkerfinu og að það væri áhyggjuefni.

Segir Bjarna vilja stinga höfðinu í sandinn

Kristrún steig þá aftur upp í pontu og sagði Bjarna vilja stinga höfðinu í sandinn hvað varðar ójafnvægi í hagkerfinu.

„Þessi ríkisstjórn treystir sér ekki einu sinni til að standa með eigin stefnu og segja hvar hún vill beita aðhaldi,“ sagði hún og spurði hvað Bjarni myndi gera til að breyta þeirri stöðu að hér væri verðbólga, ójafnvægi og ekki nógu góð afkoma.

Segir Samfylkinguna boða stóraukin útgjöld

Bjarni sagði alrangt að efnahagsmálin væru á hvolfi hér á landi og vísaði aftur í fyrrnefndar tölur.

„Við ætlum að standa með þeirri stefnu sem gengur út á það að tökum á verðbólgunni svo að vextir geti lækkað,“ sagði hann sem svar við fyrirspurn Kristrúnar og beindi spjótum sínum svo að Samfylkingunni.

„Það sem við ætlum ekki að gera er að fara leið Samfylkingarinnar sem boðar stóraukin útgjöld. Háttvirtur þingmaður er að lýsa áhyggjum af útgjaldastiginu en öll stefna Samfylkingarinnar, í hverjum málaflokki á eftir öðrum, er um aukin útgjöld og hærri skatta,“ sagði Bjarni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert