Fyrsta skrefið stigið í að gera Jóhannes Pál II að dýrlingi

Jóhannes Páll páfi annar
Jóhannes Páll páfi annar AP

Forystumenn innan kaþólsku kirkjunnar afhentu í dag ráðamönnum í Vatíkaninu ítarlegt skjal þar sem tilteknar eru ástæður fyrir því að Jóhannes Páll páfi II ætti að vera tekin í dýrlingatölu. Uppistaðan í skjalinu er vitnisburður franskrar nunnu sem segist hafa læknast af Parkisons-veiki eftir að hafa heitið á fyrrum páfa. Tvö ár eru liðin í dag frá dánardegi Jóhannesar Páls páfa.

Fyrsta skrefið í átt að því að koma einhverjum í hóp dýrlinga er að sá hinn sami verði formlega blessaður innan kaþólsku kirkjunnar. Til að páfi úrskurði að látinn maður komist í samfélag hinna blessuðu, þarf læknisskýrslu sem staðhæfir að kraftaverk og lækning hafi átt sér stað við áköllun á kirkjulega persónu.

Lokaákvörðun á ferlinu öllu er í höndum Benedikts Páfa XVI en dýrlingaferli kaþólsku kirkjunnar er margslungið og tímafrekt. Ef vitnisburður nunnunnar sem læknaðist stenst, er þörf á öðru kraftaverki til að viðkomandi sé tekin í dýrlingatölu því til þess að það gerist verður að færa sönnur á að tvö kraftaverk hafi gerst eftir dauða persónunnar. Því næst fer hópur biskups í fæðingarlandi viðkomandi með málið og eftir samþykkt yfirmanna í Róm er rannsókn komið á fót. Niðurstöður eru sendar kardinálaráði og síðan er málið sent til Páfa.

Oftast tekur þetta nákvæma ferli langan tíma en í tilfelli Jóhannesar Páls II hefur verkinu verið flýtt mjög og gaf Benedikt páfi XVI út tilskipun þess efnis aðeins tveimur vikum eftir lát fyrirrennara síns. Mikill þrýstingur á málið er frá kaþólsku kirkjunni í Póllandi.

Við venjulegar aðstæður verða að líða minnst fimm ár frá dauða viðkomandi áður en til blessunar kemur en fordæmi eru fyrir því að ferli hafi verið flýtt, líkt og við opinbera blessun Móðir Teresu en það var gert sex árum eftir dauða hennar.

Þess má geta að eini íslenski dýrlingur kaþólsku kirkjunnar var tekinn í dýrlingatölu 792 árum eftir dauða hans en það var Þorlákur hinn helgi Þórhallsson biskup í Skálholti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert