Bíll sem stolið var frá Beckham er nú ráðherrabíll í Makedóníu

Bíll sem stolið var frá David Beckham endaði sem ráðherrabíll …
Bíll sem stolið var frá David Beckham endaði sem ráðherrabíll í Makedóníu. Reuters

Knattspyrnumaðurinn David Beckham varð fyrir því á síðasta ári að BMW X5 bíl hans var stolið af bílastæði nálægt heimili Beckhams í Madríd á Spáni. Nú hefur bíllinn fundist í Makedóníu þar sem hann hefur verið notaður sem ráðherrabíll. Blöð í Makedóníu birtu myndir af bílnum í gær þar sem hann var notaður til að aka Gordönu Jankulovsku, innanríkisráðherra, um götur Skopje.

Talsmaður lögreglunnar í borginni segir, að bíllinn hafi skipt um eigendur 20 sinnum á Spáni áður en hann kom til Makedóníu og ekki sé hægt að sanna með óyggjandi hætti, að um sé að ræða bíl Beckhams.

Svo virðist sem bíllinn hafi verið sendur frá Spáni til Grikklands með skipi og þaðan var honum ekið til Makedóníu. Þar fann lögregla bílinn þegar hún skar upp herör gegn smygli í nóvember. Enginn gerði tilkall til bílsins og því var ákveðið að nota hann sem ráðherrabíl.

„Ef Beckham vill fá bílinn aftur mun ég afhenda honum lyklana sjálf," sagði Jankulovska innanríkisráðherra.

Tveimur BMW X5 bílum hefur verið stolið frá Beckham eftir að hann hóf að leika með liðinu Real Madrid árið 2003.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert