2,3 tonn farin með hjálp lego-kubba

Það er hægt að gera nær allt með lego-kubbum, líka …
Það er hægt að gera nær allt með lego-kubbum, líka grennast lego.dk

Starfsmenn Lego í Billund í Danmörku hafa á einu ári misst samtals 2,3 tonn með aðstoð lego-kubba í mötuneyti verksmiðjunnar. 240 starfsmenn ákváðu að taka þátt í heilsuátaki sem Lego stóð að ásamt dönsku vigtar-ráðgjöfunum og voru réttir í mötuneyti staðarins merktir með lego-kubbum svo starfsmenn ættu auðveldara með að meta hvað væri óhætt að leggja sér til munns.

Rauði lego-kubburinn þýðir þá að sé fitandi, gulur að hann sé í meðallagi fitandi, en grænn að vigtar-ráðgjafarnir leggi blessun sína yfir matseldina.

Pernille Dam, sem starfar hjá ráðgjöfunum sem þykja hafa náð undraverðum árangri í að ná aukakílóum af Dönum, segir að flestir starfsmannanna hafi aðeins þurft að grennast um 5-15 kíló. Dæmi séu hins vegar um að fólk hafi grennst mun meira, ein kona hafi losað sig við 43 kíló og að karl sem starfar hjá verksmiðjunni hafi grennst um 70 kíló.

Átakinu er nú formlega lokið, en forsvarsmenn Lego segjast telja að mötuneytisstarfsmenn muni áfram lauma lego-kubbum í matinn í mötuneytinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert