Írakar sameinast í andstöðu við byggingu aðskilnaðarveggjar

Víða má vegatálma á götum Bagdad, höfuðborgar Íraks.
Víða má vegatálma á götum Bagdad, höfuðborgar Íraks. Reuters

Nuri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks, ítrekaði í dag andstöðu sína við það að Adhamiyah-hverfið í Bagdad verði afmarkað með veggjum líkt og bandaríska herliði í landinu hefur uppi áform um. Efnt var til mótmælafunda í hverfinu og víðar í borginni í morgun vegna byggingarinnar.

„Ég sagði það áður en ég kom hingað að það verður að hætta við þetta og grípa til annarra ráðstafana til að vernda íbúa Adhamiyah. Ef Guð lofar munum við fara aftur til Bagdad og fylgja málinu eftir” sagði Maliki sem staddur er í Oman.

Yfirmenn bandaríska herliðsins og íraska hersins hafa varið byggingu múrsins sem þeir segja einungis um tímabundna ráðstöfun til að vernda íbúa hverfisins að ræða og að veggnum sé einungis ætlað að verja óbreytta borgara gegn hryðjuverkum og glæpahópum.

Hundruð íbúa Adhamiyah, sem er hverfi súnníta, tóku þátt í mótmælafundi í hverfinu í morgun en einnig hefur byggingu múrsins verið mótmælt annars staðar í borginni m.a. í Sadr City, þaðan sem tilræðismenn hafa gjarnan komið til að gera árásir í Adhamiyah.

Um 300 stuðningsmenn múslímaklerksins Moqtada al-Sadr komu saman í Sadr City í morgun og mótmælti því sem þeir kalla skiptingu borgarinnar. „Við synir írösku þjóðarinnar munum verja Adhamiyah eins lengi og við getum eins og við munum verja önnur hverfi sem þeir vilja einangra frá okkur,” segir í yfirlýsingu Sadr sem lesin var upp á fundinum.

„Við höfnum ekki einungis byggingu veggjar í Adhamiyah heldur hvar sem er í Írak,” segir Nassar al-Rubaie, formaður þingflokks stuðningsmanna Sadr. „Við lítum á hana sem fyrsta skrefið í átt að byggingu einhvers konar Berlínarmúrs. Til þess gerðan að tvístra sonum írösku þjóðarinnar eftir að hersetuliðinu hefur mistekist að tvístra okkur sálfræðilega."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert