Sjötíu ár liðin frá árásinni á Guernica

Málverkið Guernica eftir Picasso
Málverkið Guernica eftir Picasso AP

Sjötíu ár eru í dag frá því að þýskar og ítalskar flugsveitir nær jöfnuðu bæinn Guernica í Baskalandi á Spáni við jörðu. Atburðarins verður minnst með athöfn í bænum í dag þar sem lesin verður „friðaryfirlýsing Guernica”, en meðal þeirra sem verða viðstaddir eru Juan José Ibarretxe, forseti Baskalands, Adolkfo Pérez Esquivel handhafi friðarverðlauna Nóbels og borgarstjórar m.a. Hiroshima, Dresden, Hamborgar og Varsjár.

Í yfirlýsingunni er hvatt til sátta og ofbeldi og mannréttindabrotum mótmælt. Þá verður yfirlýsingin lesin upp við athafnir í fjölda borga, m.a. Buenos Aires, Mexíkóborg, Sydney, New York og Madríd.

Árásin þykir ein sú skelfilegasta sem gerð var í borgarastríðinu á Spáni á fjórða áratug síðustu aldar, og er fyrir mörgum táknræn fyrir þau ódæðisverk sem framin voru í stríðinu. Flugvélar Þjóðverja og Ítala, sem þá voru undir stjórn nasista og fasista, gerðu árásir á bæinn og eyðilögðu a.m.k. 2/3 bygginga í honum.

Árásin þjónaði tilgangi sem æfing fyrir Þjóðverja og Ítala, en megintilgangurinn hvað spænska fasista varðaði var að valda sem mestri ógn og skelfingu meðal Baska. Hernaðarleg skotmörk á borð við verksmiðjur og brýr voru að mestu látin í friði, en sprengjum var látið rigna á borgaraleg skotmörk.

Óvíst er hve margir létust í árásinni, en talið er að fórnarlömbin hafi verið í það minnsta 250, flest börn og gamalmenni.

Fjarverandi í dag er þó málverkið Guernica eftir Pablo Picasso, eitt þekktasta verk málarans, sem hann gerði til að minnast hörmunganna. Bæjarstjórnin í Guernica hefur krafist þess um árabil að fá verkið afhent og segja að það eigi heima í Baskalandi. Verkið er geymt á Reina Sofía safninu, sem er hluti af Prado safninu í Madríd, en stjórnendur þar segja verkið of viðkvæmt til að ráðlegt sé að flytja það.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert