Chirac hvetur Frakka til að standa saman í kveðjuávarpi sínu

Chirac lætur formlega af störfum á morgun.
Chirac lætur formlega af störfum á morgun. Reuters

Jaques Chirac Frakklandsforseti lauk síðasta starfsdegi sínum sem forseti með því að ávarpa frönsku þjóðina. Hann hvatti Frakka til þess að standa „sameinaðir og saman“ eftir að hann lét af störfum og færði völd forsetans í hendur Nicolas Sarkozy.

„Standið ávallt sameinuð og saman [...] Sameinuð, höfum við öll tækifærin, allan styrkinn, alla hæfileikana sem við þurfum á að halda til þess að marka spor okkar í þessum nýja heimi sem er að þróast fyrir augum okkar,“ sagði Chirac í sjónvarpsávarpi.

„Í kvöld vil ég segja við ykkur hversu mikill heiður það hefur verið að fá að þjóna ykkur. Ég vil segja ykkur hversu sterk tengsl mín, frá mínum dýpstu hjartarótum, sameina mig hverjum manni og hverri konu ykkar á meðal,“ sagði hann.

„Ég vil segja ykkur hvað ég ber mikið traust til ykkar, og hve trú mín á Frakkland er sterk. Ég veit að nýi forsetinn, Nicolas Sarkozy, vill ólmur leiða þjóð okkar áfram framtíðarveginn, og ég sendi honum mínar bestu óskir í þessu krefjandi og fallega verkefni,“ sagði Chirac.

Chirac lætur af embætti á morgun eftir að hafa setið 12 ár í valdastóli forseta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert