Peres útnefndur sem forsetaframbjóðandi Kadima

Shimon Peres.
Shimon Peres. Reuters

Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, sagði í dag að Shimon Peres hafði verið útnefndur forsetaframbjóðandi Kadima-flokksins. Embætti forsetans er fyrst og fremst táknrænt.

„Ég gaf Peres til kynna í gær að ég muni bjóða hann fram til forsetaembættisins og ég muni gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að fá hann kjörinn,“ sagði Olmert við flokksmenn sína í Kadima.

„Saga Peres tengist sögu Ísraels, sem hann átti þátt í að móta [...] enginn er meira tengdur ísraelska ríkinu og hann.“

Tilkynna þarf formlega um framboð Peres fyrir 3. júní, en hann hefur ekki lýst því formlega yfir hvort hann hyggst bjóða sig fram eður ei.

Ísraelska þingið mun kjósa nýjan forseta 13. júní í stað Moshe Katsavs, sem á yfir höfði sér ákæru fyrir ýmsar sakir, þar á meðal nauðgun.

Peres, sem er 83 ára, er friðarverðlaunahafi Nóbels og einn þekktasti núlifandi stjórnmálamaður í Ísrael. Hann tapaði fyrir Katsav í forsetakjöri árið 2000 en sú niðurstaða kom mjög á óvart.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert