Naflastrengur prinsessunnar geymdur þvert á landslög

Felipe og Letizia með eldri dóttur sína Leonor.
Felipe og Letizia með eldri dóttur sína Leonor. Reuters

Felipe, krónprins Spánar, og Letizia krónprinsessa hafa komið stofnfrumum úr naflastreng Sofiu, nýfæddrar dóttur sinnar, fyrir í frumubanka í ótilgreindu Evrópulandi þar sem einstaklingum er óheimilt samkvæmt spænskum lögum að geyma stofnfrumur þar í landi. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

“Rannsóknir og læknismeðferð þróast hratt á þessu sviði. Við höfum mikla trú á þessari aðferð,” sagði prinsinn er hann greindi frá þessu skömmu eftir fæðingu dótturinnar þann 29. apríl. Þá sagði hann þau hjónin einnig hafa gefið opinberum frumubanka spænska ríkisins hluta úr naflastrengnum.

Fram kemur á fréttavef Jyllands-Posten að nokkuð algengt sé að foreldrar í Suður-Kóreu láti geyma naflastrengi nýfæddra barna sinna og að það verði einnig sífellt algengara á meðal danskra foreldra. Með þessu vilja foreldrarnir halda opnum möguleikanum á því að hægt verði að vinna stofnfrumur úr naflastrengnum síðar, greinist barnið með alvarlegan sjúkdóm.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert