Seladauði í Danmörku

Að minnsta kosti 40 vorselskópar fundust dauðir á dönsku eyjunni Anholt í dag en eyjan er í Kattegat á milli Danmerkur og Svíþjóðar. Óttast er að veira, sem olli dauða þúsunda vorsela í Evrópu fyrir fimm árum hafi aftur látið á sér kræla.

Verið er að rannsaka sýni úr nokkrum selanna en ekki er búist við niðurstöðu fyrr en á morgun. Hins vegar segir Henrik Lykke Sørensen hjá dönsku náttúrufræðistofnuninni, að allt bendi til þess að umrædd veira hafi valdið dauða selskópanna.

Sørensen sagði að eldri dýr væru orðin ónæm fyrir veirunni, sem smitast með líkamsvessum eða þegar dýrin fljúgast á. Veiran veldur öndunarerfiðleikum og hita og herjar á ónæmiskerfi dýranna sem fá þá aðra sjúkdóma, svo sem lungnabólgu.

Talið er að um 12 þúsund selir séu í Kattegat. Árið 2002 drapst nærri helmingur vorselastofnsins í Danmörku, Svíþjóð, Þýskalandi, Bretlandi og Hollandi og árið 1988 drápust nærri 60% af vorselastofnunum í Norður-Evrópu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert