Eyðimerkurmyndun verður helsti umhverfisvandinn

Eyðimerkurmyndun er að verða stærsti umhverfisvandinn.
Eyðimerkurmyndun er að verða stærsti umhverfisvandinn. AP

Fimmtíu milljón manna gætu orðið landflótta og misst heimili sín vegna landeyðingar og eyðimerkurmyndunar á næstu 10 árum segir í skýrslu sem 200 sérfræðingar frá 25 löndum hafa gert á vegum háskóla Sameinuðu Þjóðanna. Þar segir að loftslagsbreytingar séu í þann veg að gera eyðimerkurmyndun að stærsta umhverfisvanda nútímans.

Á fréttavef BBC kemur fram að skýrslan er ómyrk í máli og að samkvæmt henni er hætta á að þriðjungur mannkyns sé í hugsanlegri hættu á að verða fórnarlömb hinnar hægfara eyðimerkurmyndunar á jörðinni.

Ofnýting á landi, ofbeit og loftslagsbreytingar eru helstu ástæðurnar. Mest er eyðimerkurmyndunin í Afríku sunnan Sahara og í Mið-Asíu.

Sérfræðingarnir leggja til að tré verði gróðursett á þurrkasvæðum og að breytingar á landbúnaðaraðferðum verði gerðar og horfið verði frá ræktun sem þarfnast mikillar vökvunar. Þó beri að hafa í huga að sumar gerðir trjáa þurfi gríðarlega mikið vatn og geti því aukið vandann fremur en minnkað hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka