Berezovskí segist hafa verið ákærður fyrir valdaránssamsæri

Borís Berezovskí.
Borís Berezovskí.

Lögmaður rússneska auðkýfingsins Borís Berezovskís segir að skjólstæðingur sinn hafi verið formlega ákærður í Rússlandi fyrir að undirbúa valdaránstilraun. Berezovskí er í útlegð í Lundúnum. Talsmaður rússnesku öryggisþjónustunnar vildi ekki tjá sig um málið og sagði að engin formleg tilkynning hefði verið gefin út um slíka ákæru.

Andrei Borovkov, lögmaður Berezovskís, segir að borist hafi tilkynning frá FSB þar sem Berezovskí sé ákærður fyrir aðild að samsæri um valdarán í Rússlandi. Viðurlög við slíku er 12-20 ára fangelsi samkvæmt rússneskum lögum.

Borovkov sagði, að ákæran byggðist á viðtölum, sem Berezovskí veitti blaðinu Guardian, útvarpsstöðinni Echo í Moskvu og frönsku fréttastofunni AFP. Í þessum viðtölum virtist Berezovskí hvetja til þess að núverandi stjórnvöldum í Rússlandi verði steypt af stóli með valdi.

Bresk stjórnvöld, sem veittu Berezovksí hæli árið 2003, fordæmdu ummæli hans í Guardian og sögðu að hann yrði að virða bresk lög.

Berezovskí er þegar eftirlýstur í Rússlandi og á yfir höfði sér réttarhöld að sér fjarverandi fyrir fjársvik og peningaþvætti.

Rússar krefjast þess að Bretar framselji Berezovskí en því hafa bresk stjórnvöld hafnað.

Berezovskí safnaði auði í tengslum við einkavæðingu rússneskra ríkisfyrirtækja á 10. áratug síðustu aldar og var innanbúðarmaður í Kreml. Hann var lengi dyggur stuðningsmaður Vladímírs Pútíns en eftir að Pútín var kjörinn forseti Rússlands slettist upp á vinskapinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert