Lést eftir að hafa verið skilinn eftir í bíl í hitabylgju

Stjúpmóðir eins árs gamals drengs, sem fannst látinn í læstri bifreið í Orfino í Idaho-ríki í Bandaríkjunum á miðvikudagskvöldið, hefur verið ákærð fyrir að bera ábyrgð á dauða drengsins. Drengurinn hafði verið læstur inni í bifreiðinni í fimm klukkustundir í 38 stiga hita þegar vegfarandi tók eftir honum. Var hann látinn þegar lögreglu bar að garði.

Gríðarlegur hiti er víða á vesturströnd Bandaríkjanna og hefur hitinn víða farið yfir 40 gráður í forsælu.

Í nokkrum ríkjum hefur almenningur verið beðinn um að halda sig innandyra yfir heitasta tímann en í Baker í Kaliforníu fór hitinn í 52 gráður í gær og í Phoenix í Arizona var 46 stiga hiti í gær. Áfram er spáð miklum hita í dag.

Í Las Vegas, þar sem hitinn var 47 gráður síðdegis í gær fór rafmagn af vegna álags. Jafnvel í Stanley í Idaho, sem er í yfir 1.800 metra hæð yfir sjávarmáli, var sett hitamet í gær þegar hitinn fór í 33 gráður. Í dag er gert ráð fyrir að hitinn verði enn meiri þar, á einum svalasta stað Bandaríkjanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert