Tilkynnt um ný sjö undur heims

Kínamúrinn, borgin Petra í Jórdaníu, stytta af Jesús Kristi í Rio de Janero í Brasilíu, Inkarústirnar í Machu Picchu í Perú, Colosseum hringleikahúsið í Róm, Taj Mahal höllin á Indlandi og forna Mayaborgin Chichen Itza í Mexíkó eru hin nýju sjö undur heims, samkvæmt nýrri kosningu á Netinu.

Greint var frá niðurstöðunni í Lissabon í Portúgal í kvöld en alls tóku um 100 milljónir þátt í kosningunni á netinu og í gegnum síma.

Keppnin um hin nýju sjö undur heims var stofnuð af svissneskum ævintýramanni, Bernard Weber og setti hann saman nefnd arkitekta til að setja saman lista með 21 „undri”.

Í fornöld voru valin sjö undur veraldar sem tákn um afrek mannsandans. Voru þau talin vera píramídarnir í Giza, hengigarðarnir í Babýlon, Seifsstyttan í Ólympíu, Artimesarmusterið í Efesos, Grafhýsið í Halikarnassos, Kólossus á Ródos og vitinn í Alexandríu. Öll voru þessi mannvirki á Miðjarðarhafssvæðinu og af þeim standa píramídarnir nú einir eftir.

Þúsundir Jórdana fögnuðu þegar í ljós kom að borgin Petra …
Þúsundir Jórdana fögnuðu þegar í ljós kom að borgin Petra var valin ein af 7 undrum heims AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert