Olmert fagnar hugmyndum Bush en Hamas fordæma þær

Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, og Mahmoud Abbas, leiðtogi Palestínumenna, er …
Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, og Mahmoud Abbas, leiðtogi Palestínumenna, er þeir hittust í Jerúsalem í gær. Reuters

Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, fagnaði í morgun þeirri hugmynd George W. Bush Bandaríkjaforseta að efnt verði til friðarráðstefnu Ísraela, Palestínumanna og nokkurra Arabaríkja síðar á þessu ári. Sami Abu Zuhri, talsmaður Hamas-samtakanna á Gasasvæðinu, sagði hugmyndina hins vegar út í hött og sakaði Bush um að leggja á ráðin um krossferð gegn palestínsku þjóðinni. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.

Miri Eisin, talskona Olmerts, segir hugmynd Bush veita tvíhliða viðræðum þjóðanna aukið gildi og að slík ráðstefna sé kjörinn vettvangur til að styrkja hófsöm öfl á meðal Palestínumanna. Þá segir hún Olmert vonast til að Sádi-Arabía og fleiri Arabaríki, sem ekki hafa stjórnmálasamband við Ísrael, taki þátt í ráðstefnunni.

Nabil Abu Rudeineh, talsmaður Fatah-samtakanna, fagnaði einnig hugmyndum Bush en ítrekaði að allar friðarviðræður á svæðinu verði að hafa stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínumanna að meginmarkmiði. Þá sagði Nabil Amr, aðalráðgjafi Mahmoud Abbas, leiðtoga Palestínumanna, að ávarp Bush í gær hafi opnað nýjar dyr og endurnýjað friðarferli Ísraela og Palestínumanna.

David Welch, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna í málefnum Miðausturlanda, kvaðst í gær vongóður varðandi möguleika á þátttöku ríkja sem ekki hafa stjórnmálasamband við Ísrael í slíkri ráðstefnu. “Við værum ekki að ráðast í þetta verkefni ef við teldum ekki vera ákveðinn vilja fyrir því á svæðinu að hefja nýtt friðarferli. Við teljum þetta vera réttu stundina fyrir alla aðila til að byrja upp á nýtt og reyna að láta hlutina ganga,” sagði hann.

Bush hét því einnig í gær að veita nýrri bráðabrigðstjórn Palestínumanna rúmlega 190 milljón Bandaríkjadollara í fjárhagsaðstoð fram í september á þessu ári. Þá hvatti hann önnur ríki til að auka fjárhagsaðstoð sína við Palestínumenn og til stofnunar styrktarhóps Palestínumanna sem í yrðu ríki á borð við Sádi-Arabíu, Jórdaníu og Egyptaland.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert