Mikið ber á milli í viðræðum Olmerts og Abbas

Ehud Olmert og Mahmoud Abbas.
Ehud Olmert og Mahmoud Abbas. Reuters

Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, og Mahmoud Abbas, leiðtogi Palestínumanna, munu hittast á fundi í Jerúsalem í dag til að reyna að koma sér saman um grundvöll þeirra samningaviðræðna sem fram munu fara á fyrirhugaðri alþjóðlegri ráðstefnu um málefni Miðausturlanda. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.

Fréttaskýrendur segja himin og haf skilja á milli þess sem Olmert og Abbas vilja ræða á ráðstefnunni og í gær lýsti Abbas því yfir að hann teldi tilgangslaust að halda slíka ráðstefnu verði málin ekki rædd raunhæft og í smáatriðum. Olmert hefur hins vegar sagt að einungis sé stefnt að því að ná samkomulagi um grundvallarhugmyndir á ráðstefnunni.

Leiðtogarnir hittust síðast í Jerikó á Vesturbakkanum í upphafi mánaðarins en stefnt er að því að ráðstefnan verði haldin í nóvember. Abbas hefur þó lýst áhyggjum af því að enn eigi eftir að ganga frá mörgum málum áður en hún getur farið fram.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert