Breskar hersveitir fara frá Basraborg

Breskir hermenn í borginni Basra.
Breskir hermenn í borginni Basra. AP

Breskar hersveitir hófu í dag brottflutning frá höfuðstöðvum sínum í borginni Basra í suðurhluta Íraks. Um 550 hermenn voru í bækistöðvunum og eru þeir nú að slást í hóp um 5000 breskra hermanna, sem eru í bækistöðvum skammt frá flugvellinum í Basra.

Talsmaður breska forsætisráðuneytisins staðfesti í kvöld, að Gordon Brown, forsætisráðherra, hefði fengið upplýsingar um þessa liðsflutninga en þetta væri mál hersins.

Talsmaðurinn sagði, að flutningur hermanna frá Basrahöll væri þáttur í því ferli, að afhenda íröskum öryggissveitum öryggisgæslu í borginni. Hann vildi ekki staðfesta, að í þessu fælist fækkun í breska herliðinu í Írak. Breskir herforingjar í Írak myndu leggja mat á hernaðarþörfina á næstu vikum og mánuðum.

Mohan Tahir, yfirmaður íraskra öryggisveita í Basrahéraði, skýrði frá liðsflutningunum á blaðamannafundi í kvöld, þeim fyrsta sem hann heldur í Basraborg. Sagði hann, að íraskar hersveitir réðu nú yfir Basrahöll.

Breska blaðið Sunday Times sagði í dag, að bresk stjórnvöld væru reiðubúin til að afhenda Íraksher stjórn mála í Basrahéraði á næstu vikum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert