Fannst á lífi eftir að hafa verið týnd í skóglendi í tvær vikur

Björgunarsveitarmenn sjást hér koma Doris Anderson til hjálpar sl. fimmtudag.
Björgunarsveitarmenn sjást hér koma Doris Anderson til hjálpar sl. fimmtudag. AP

Sjötíu og sex ára gömul kona kom björgunarsveitarmönnum á óvart þegar þeir fundu hana á lífi og við góða heilsu í fjöllunum í Oregon í Bandaríkjunum. Ekkert hafði spurst til konunnar í tvær vikur og höfðu björgunarsveitarmenn gefið upp vonina að finna hana á lífi þegar hún loks fannst.

Doris Anderson var í veiðiferð ásamt Harold eiginmanni sínum þegar bifreiðin þeirra bilaði þann 24. ágúst sl.

Þrátt fyrir að hjónin væri í marga km frá mannabyggðum reyndu þau að ganga til byggða. Þau urðu hinsvegar viðskila í skógi. Þess má geta að Harold komst til byggða heill á húfi.

Fjölskylda konunnar var byrjuð að undirbúa minningarathöfn þegar lögreglan fann hana.

Konan þjáðist af vatnsskorti þegar hún loks fannst en hún náði samt að svala þorstanum í nálægum læk.

Þrátt fyrir að hún væri léttklædd þá tókst henni að lifa af kaldar nætur, en næturhitinn var oft við frostmark. Hún fékk kalsár á tærnar en hún mun ekki þurfa að gangast undir aðgerð vegna sáranna.

Læknarnir sem tóku á móti Doris segja að hún sé við óvenju góða heilsu miðað við það sem hún hefur þurft að ganga í gegnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert