Sigurinn mikilvægari en þrennan

Orri Steinn Óskarsson með FCK á Kópavogsvelli síðasta sumar.
Orri Steinn Óskarsson með FCK á Kópavogsvelli síðasta sumar. mbl.is/Hákon Pálsson

Orri Steinn Óskarsson, hetja FC Köbenhavn í sigrinum á AGF í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, segir að sigurinn hafi verið mikilvægari en þrennan hans, sem er hans fyrsta fyrir félagið í deildinni.

Orri kom inn á sem varamaður snemma í síðari hálfleik á Parken í gær þegar staðan var 0:0 og skoraði á 59., 85. og 88. mínútu leiksins sem endaði með sigri FCK, 3:2.

„Þetta var ótrúlega sætt en það mikilvægast var að vinna leikinn," sagði Orri í viðtali við sjónvarp FCK eftir leikinn.

„Staðan var 0:0 þegar ég kom inn á og síðan fengum við hornspyrnu. Ég var upp við markið, fékk boltann og skoraði, og við það jókst sjálfstraustið verulega þannig að ég fór í rétt hugarástand. Og sem betur fer hef ég góða tilfinningu fyrir því hvar markið er,“ sagði Orri.

Hann er nú markahæsti leikmaður FCK í úrvalsdeildinni á tímabilinu, ásamt Roony Bardghji, en þeir hafa skorað sjö mörk hvor á meðan tveir aðrir eru með sex mörk.

Þá kemur fram á heimasíðu FCK að Orri sé fyrsti leikmaður félagsins frá árinu 1997 sem komi inn á sem varamaður og skori þrennu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert