Ísraelskir nýnasistar handteknir

Lögreglan í Ísrael segist hafa leyst upp samtök nýnasista sem eru sökuð um að hafa staðið á bak við fjölmargar árásir sem hafa verið gerðar á útlendinga, samkynhneigða og heittrúaða gyðinga.

Átta menn liggja undir grun, en þeir eru á aldrinum 16 til 21s árs. Þeir eru allir ísraelskir ríkisborgarar sem koma frá fyrrum Sovétlýðveldum. Mennirnir voru handteknir fyrir um mánuði síðan, en fréttir af handtöku mannanna bárust fyrst í gær.

Lögreglan segir að hún hafi fundið nasistabúninga, myndir af Adolf Hitler, hnífa, byssur og TNT-sprengiefni við húsleitir hjá mönnunum.

Ísraelsríki var stofnað í kjölfar helfararinnar þar sem milljónir létu lífið.

Málið var í rannsókn í um eitt ár eða frá því bænahús í Petah Tikva, sem er borg rétt austan við Tel Aviv, var vanhelguð með því að teikna hakakross á bænahúsið auk nafns Adolfs Hitlers.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert