Xi Jinping í París

Forseti Kína lenti á Orly-flugvelli í París fyrr í dag. …
Forseti Kína lenti á Orly-flugvelli í París fyrr í dag. Xi Jinping til vinstri og forsætisráðherra Frakklands, Gabriel Attal, til hægri. AFP/Stephane de Sakutin

Xi Jinping, forseti Kína, lenti fyrr í dag á Orly-flugvelli í París. Forsætisráðherra Frakklands, Gabriel Attal, tók á móti forsetanum, en talið er að forseti Frakklands, Emmanuel Macron, muni nýta heimsókn Jinping til þess að ræða mál á borð við stríðið í Úkraínu. 

Xi hyggst heimsækja Serbíu og Ungverjaland í Evrópuferð sinni, en þetta er fyrsta opinbera heimsókn hans til Evrópu frá árinu 2019. 

Bærileg samskipti Kína og Frakklands

Að Xi skuli heimsækja Frakkland í Evrópuferð sinni er talið vera til merkis um bærileg samskipti á milli þjóðanna tveggja, en Macron heimsótti Kína á síðasta ári.

XI mun funda á morgun með forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Ursulu von der Leyen, og boðið verður til veislu í forsetahöllinni að fundi loknum. 

Náin samskipti í Pýraneafjöllum

Á þriðjudag mun Macron bjóða Xi til seturs í Pýreneafjöllunum fjarri fjölmiðlum, sem er sagt gefa leiðtogunum færi á nánari samskiptum. 

Forgangsmál viðræðnanna verður stríðið í Úkraínu og talið er að Macron muni vara kínverska forsetann við því að styðja við bakið á Rússlandi í átökunum. 

Mannréttindasamtök hafa hvatt Macron til þess að ræða mannréttindamál við Xi og þar á meðal viðhorf Kína til eyjunnar Taívan sem Kína álítur sína eign.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert