Ítölsk neytendasamtök boða pastaverkfall á morgun

Pastagerðarmaður í Pisa á Ítalíu.
Pastagerðarmaður í Pisa á Ítalíu. AP

Verð á pasta mun á næstunni hækka um 20% á Ítalíu, og hafa neytendasamtök þar í landi hvatt til þess að á morgun fari allir Ítalir í pastaverkfall til að mótmæla hækkuninni. Framleiðendur segja að hækkunin stafi af hækkun verðs á korni á heimsmarkaði.

Neytendasamtökin eru ekki að fara fram á að Ítalir sleppi því að borða pasta á morgun, aðeins að þeir kaupi hvorki spaghetti né fettucini eða annað pasta. Meðalítalinn neytir um 28 kílóa af pasta á ári, og lítið hefur farið fyrir kolvetnasnauðum mat á Ítalíuskaganum enn sem komið er.

Furio Braganolo, varaformaður samtaka ítalskra pastaframleiðenda, segir „verkfallsboðunina“fráleita. Enginn matur sé ódýrari en pasta. Hvað svo sem menn kaupi í staðinn verði það dýrara.

Hveitiverð hefur farið hækkandi á heimsmarkaði vegna þess að eftirspurnin hefur aukist, og það á sér nokkrar skýringar, ekki síst aukna eftirspurn eftir lífrænu eldsneyti, sem hægt er að framleiða úr hveiti. Einnig hefur mataræði verið að breytast í þróunarlöndum og kjötneysla að aukast, sem leiðir til aukinnar eftirspurnar eftir nautgripafóðri, segir Francesco Bertolini, hagfræðingur við Bocconiháskóla í Mílanó.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert