Bush vill ekki tala um þjóðarmorð á Armenum

Talsmaður Hvíta hússins í Washington segir George W. Bush Bandaríkjaforseta vera mótfallinn því að sett verði bandarísk lög sem skilgreina dauða hundruð þúsunda Armena á árunum 1915 til 1923 sem þjóðarmorð.

„Forsetinn hefur lýst atburðunum árið 1915 sem einum mesta harmleik tuttugustu aldar en hann telur að sagan eigi að skera úr um það, en ekki lagasetning, hvort um þjóðarmorð hafi verið að ræða,” segir talsmaðurinn Gordon Johndroe.

Lagafrumvarp, þar sem kveðið er á um að atburðirnir verði skilgreindir sem þjóðarmorð, liggur nú fyrir fulltrúadeild Bandaríkjaþings. Bush ræddi við Recep Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands í dag og segir Johndroe hann hafa ítrekað andstöðu sína við frumvarpið sem hann telji að muni skaða samskipti Bandaríkjanna og Tyrklands verði það samþykkt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert