Nancy Pelosi segir Bandaríkin virðast vera sek um pyntingar

Nancy Pelosi.
Nancy Pelosi. AP

Forseti Bandaríkjaþings, Nancy Pelosi, segir að svo virðist sem að Bandaríkin séu með ólögmætum hætti að pynta fanga, sem sakaðir eru um hryðjuverk. Þetta geri Bandaríkin þvert á yfirlýsingar George W. Bush Bandaríkjaforseta sem hefur neitað öllum slíkum fullyrðingum.

Pelosi, sem er gegnir æðsta embætti demókrata í Bandaríkjunum, segir að hún vonist enn til að geta kallað meirihluta bandarískra hermanna frá Írak fyrir árslok 2008. Þetta segir hún þrátt fyrir að demókrötum hafi ekki tekist að afla sér nægilega mikils stuðnings meðal repúblikana á Bandaríkjaþingi við áætlun þeirra.

Í samtali við Fox News sagði Pelosi að yfirheyrsluaðferðir eins og láta fólk halda að það sé drukkna, það sé slegið í höfuðið og látið þola mikinn hita eða kulda, aðferðir sem Bandaríkjamenn eru sagðir beita á meinta hryðjuverkamenn, séu ekkert annað en ólögmætar pyntingar.

„Það er til lagaleg skilgreining á pyntingum og ég tel að þetta myndi heyra undir þá skilgreiningu. Forsetinn segir að svo sé ekki,“ sagði Pelosi.

Þá segist hún aðeins hafa fengið takmarkaðan tíma til að fara yfir yfirheyrsluaðferðirnar með ríkisstjórn Bush auk þess sem hún hafi ekki séð umdeilt minnisblað dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna frá árinu 2005.

Á fimmtudag birti bandaríska dagblaðið New York Times frétt þar sem því er haldið fram að á umræddu minnisblaði hafi það bæði verið heimilað og réttlætt að beita mætti ofbeldisfullum yfirheyrsluaðferðum á fanga sem grunaðir eru um hryðjuverk.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert