Spænskir læknar handteknir vegna ólöglegra fóstureyðinga

Spænska lögreglan handtók í dag lækna í Barcelona sem grunaðir eru um að hafa framkvæmt fóstureyðingar eftir allt að 35 vikna meðgöngu. Lögreglan réðst til atlögu á ótilgreindum fjölda læknastofa sem stunda fóstureyðingar. Útlendingar eru einkum sagðir hafa komið til Spánar til að nýta sér þjónustuna en fjallað var um einn þeirra handteknu í dönsku sjónvarpi fyrir rúmu ári.

Fréttavefur Berlingske Tidende segir að læknar hafi tekið allt að 6.000 evrur, eða rúma hálfa milljón króna, fyrir aðgerðirnar sem eru ólöglegar í Spáni líkt og víðast annars staðar, þegar svo langt er liðið á meðgönguna.

Að minnsta kosti tvær læknisstofanna eru í eigu perúska læknisins Carlos Morín, sem danski sjónvarpsþátturinn Søndagsmagasinet fjallaði um fyrir ári. Þar bauðst hann til að framkvæma fóstureyðingu á danskri sjónvarpskonu, sem langt var komin á leið.

Spænska lögreglan vill ekki meina að handtökurnar tengist með neinum hætti umfjöllun danskra fjölmiðla.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert