Náttúruverndarsinnar orðnir olíulausir

Japanska hvalveiðiskipið Yushin Maru 2.
Japanska hvalveiðiskipið Yushin Maru 2.

Liðsmenn náttúruverndarsamtakanna Sea Shepherd, sem hafa reynt að trufla hvalveiðar Japana í Suðurhöfum að undanförnu, segja að þeir muni nú halda til lands vegna þess að skip þeirra sé að verða olíulaust. Skipi Grænfriðinga var siglt af hvalamiðunum fyrir tveimur dögum af sömu ástæðu. 

Sea Shepherd sagði í morgun, að skip samtakanna, Steve Irwin, muni halda til Melbourne eftir nokkra daga. Þar segir Paul Watson, leiðtogi samtakanna, að ástæðan sé sú að eldsneytisbirgðir skipsins séu á þrotum.

Sjávarútvegsráðuneyti Japans staðfesti að hvalveiðiflotinn hefði ekki veitt neinn hval á þeim tæpa hálfa mánuði sem liðinn er frá því tveir liðsmenn Sea Shepherd fóru um borð í hvalveiðiskip á miðununum. Sagðist ráðuneytið fagna því, að Steve Irwin væri á leið til lands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert