Hillary Clinton biðst afsökunar

Hillary Clinton bað kjósendur ítrekað afsökunar á umræðufundi á vegum National Newspaper Publishers Association í gærkvöldi.

Hún baðst afsökunar á ummælum Bills Clinton eftir tap Hillary í Suður-Karólínu fyrir Barack Obama. Bill sagði að Jesse Jackson hefði einnig unnið þar í forsetaframboði sínu árin 1984 og 1988 en það var illa séð af mörgum og þótti fólki Clinton vera að gera lítið úr árangri Obama. „Mér þykir leitt ef einhverjir móðguðust. Það var ekki ætlunin. Við getum verið stolt af bæði Jesse Jackson og Obama“, sagði Hillary Clinton.

Clinton hjónin hafa í gegnum árin notið gríðarlegs stuðnings blökkumanna en dregið hefur verulega úr þeim stuðningi og nýtur Obama góðs af því.

Í gær sagði Geraldine Ferraro sig úr fjáröflunarnefnd framboðs Hillary Clitnon vegna gagnrýni sem hún fékk á sig vegna ummæla sem hún lét falla um Obama. Töldu margir að ummæli hennar ýttu undir kynþáttafordóma. „Ég tek ekki undir ummæli hennar og mér þykir leitt að þau skyldu sögð. Hún talaði ekki fyrir hönd framboðsins og hún hefur sagt upp störfum“, sagði Clinton á umræðufundinum, að því er fram kemur á fréttavef Fox News.

Hillary Clinton
Hillary Clinton AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert