Bill Clinton gagnrýndur

Bill Clinton, fyrrum Bandaríkjaforseti, á kosningafundi eiginkonu sinnar Hillary á …
Bill Clinton, fyrrum Bandaríkjaforseti, á kosningafundi eiginkonu sinnar Hillary á föstudag. AP

Bill Clinton, fyrrum Bandaríkjaforseti, sætir enn gagnrýni vegna framgöngu sinnar í kosningabaráttu eiginkonu sinnar Hillary Rodham Clinton, sem sækist eftir að verða forsetaefni demókrata í forsetakosningunum sem fram fara í landinu í haust. Er Clinton m.a. sakaður um að gefa í skyn að Barack Obama, keppinaut hennar skorti föðurlandsást. 

Merrill „Tony" McPeak, fyrrum hershöfðingi í flugher Bandaríkjanna, segir það hafa komið sér á óvart og valdið sér miklum vonbrigðum er hann varð vitni að því hvernig Clinton hafi beitt blekkingarleikjum. Nefndi hann það sem dæmi að Clinton hafi sagt er hann ávarpaði fyrrum hermenn: „Mér þætti stórkostlegt ef við ættum kosningaár þar sem báðir frambjóðendur elskuðu föðurlandið  og stæðu með hagsmunum þess.” 

McPeak, sem er yfirlýstur stuðningsmaður Obama, segist hafa haldið að Clinton af öllum mönnum ætti að vita betur en að vísa til herþjónustu í umræðum um föðurlandsást en Clinton var sjálfur sakaður um það í kosningabaráttunni árið 1992 að hafa komið sér undan herkvaðningu.

Howard Wolfson, talsmaður framboðs Hillary Clinton, segir Clinton alls ekki hafa verið að vísa til Obama með þessum ummælum heldur hafi verið um almennar hugrenningar hans að ræða.

Michelle, eiginkona Obama, var í síðasta mánuði gagnrýnd fyrir þau orð hennar að hún væri nú í fyrsta sinn, frá því hún fullorðnaðist, sannarlega stolt af föðurlandi sínu. Í kjölfar ummæla hennar sendi framboð Obama frá sér yfirlýsingu þar sem fram kom að hún hefði alla tíð verið stolt af föðurlandi sínu. Það sem hún hafi átt við væri að hún væri nú í fyrsta skipti stolt af bandarískum stjórnmálum.  

Framboð Obama sendi einnig frá sér yfirlýsingu vegna ummæla McPeak í janúar þar sem fram kom að hann hefði gengið of langt er hann sagði að Obama kæmi ekki fram í sjónvarpi til að gráta. Vísaði hann þar til þess er Hillary Clinton klökknaði er hún kom fram í sjónvarpi í New Hampshire.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert