Kosningar í Zimbabwe

Í dag fara fram þing- og forsetakosningar í Zimbabwe þar sem ráðast mun hvort forseti landsins til 28 ára, Robert Mugabe muni ná kjöri sjötta kjörtímabilið í röð. Óttast er að ofbeldi muni brjótast út í kjölfar fregna af kosningasvindli.

Í morgun bárust fregnir af löngum biðröðum sem mynduðust snemma við marga kjörstaði og eru kjósendur sagðir ákveðnir í að fá að neyta kosningaréttar síns í þessum kosningum sem sagðar eru þær mikilvægustu síðan landið fékk sjálfstæði frá Bretum 1980.

Mótframbjóðendur Mugabes eru þeir Morgan Tsvangirai sem er leiðtogi MDC flokksins sem er í stjórnarandstöðu og Simba Makoni sem var áður í Zanu-PF flokki Mugabes en býður sig nú fram sem sjálfstæðan frambjóðanda.

Samkvæmt fréttavef BBC segir MDC að kosningasvindl verði viðhaft til að tryggja Mugabe áframhaldandi setu á forsetastóli landsins og öryggissveitir landsins óttast að uppúr muni sjóða og að í dag muni koma til blóðugra átaka.

BBC telur að Mugabe njóti stuðnings úti á landsbyggðinni en MDC flokkurinn í borgunum.

Kjörstöðum verður lokað klukkan 17 að íslenskum tíma en reiknað er með að fyrstu niðurstöður muni birtast á mánudaginn. Frambjóðendur þurfa hreinan meirihluta eða meira en 50% atkvæða ef ekki á að koma til seinni umferðar kosninganna eftir 3 vikur.


Langar biðraðir mynduðust á kjörstöðum í Harare fyrir dögun.
Langar biðraðir mynduðust á kjörstöðum í Harare fyrir dögun. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert