Úkraína fékk tryggingu fyrir aðild að Nató

Jaap de Hoop Scheffer og Viktor Jútsjenkó koma á blaðamannafundinn …
Jaap de Hoop Scheffer og Viktor Jútsjenkó koma á blaðamannafundinn í morgun. AP

„Það er ekki hægt að misskilja þennan texta. Hér stendur Atlantshafsbandalagið “samþykkir að þessi lönd [Georgía og Úkraína] fái aðild að Nató.” Þetta getur tæplega orðið skýrara,” sagði framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO), Jaap de Hoop Scheffer, á blaðamannafundi í Búkarest, þegar hann var spurður út í stækkun bandalagsins.

Á blaðamannafundinum þakkaði Viktor Jútsjenkó, forseti Úkraínu, Scheffer fyrir að hafa beitt sér fyrir aðild að Nató. Hann sagðist vita að það hefði ekki verið auðvelt að ná fram þeirri niðurstöðu sem varð á leiðtogafundinum. Jútsjenkó sagðist vera mjög ánægður með yfirlýsingu fundarins.

„Ákvörðun gærdagsins felur í sér að Nató tók ábyrgð á því að Úkraína mun fá aðild að bandalaginu. Aðild að umsóknarferlinu felur ekki sjálfkrafa í sér aðild að bandalaginu. Það hefur tekið sum þau ríki sem hafa fengið aðild að umsóknarferlinu á síðustu árum 6-9 ár að fá formlega aðild. Aðild að umsóknarferlinu felur ekki í sér tryggingu fyrir aðild. Í gær fékk Úkraína hins vegar tryggingu fyrir aðild að Nató.”

Jútsjenkó sagði að nú þegar Úkraína hefði fengið þessa tryggingu sneri málið fyrst og fremst um að vera þolinmóð gagnvart þeirri vinnu sem ætti eftir að vinna áður en landið fengi formlega aðild.

„Þessi ákvörðun sýnir að Úkraína nýtur virðingar í flóknum heimi. M.a. þess vegna met ég afar mikils þá ákvörðun sem var tekin á leiðtogafundinum í gær.”

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert