52 stúlkur fluttar af búgarði sértrúarsöfnuðar í Texas

Stúlkurnar fluttar af búgarðinum í gær.
Stúlkurnar fluttar af búgarðinum í gær. AP

Yfirvöld í Texas fluttu í gær 52 stúlkur af búgarði sértrúarsöfnuðar vegna gruns um kynferðislega misnotkun. Leiðtogi söfnuðarins, Warren Jeffs, var hnepptur í fangelsi í fyrra eftir að hann var fundinn sekur um að hafa neytt 14 ára stúlku í söfnuðinum til að giftast frænda hennar.

Stúlkurnar sem fluttar voru af búgarðinum eru frá sex mánaða til 17 ára. Sumar eru í umsjá yfirvalda, en aðrar fara á fósturheimili.

Jeffs bíður nú réttarhalda í Arizona, þar sem hann er ákærður fyrir aðild að fjórum sifjaspellsmálum og kynferðislegri misnotkun á barni í tengslum við skipulögð hjónabönd. 

Talið er að um 150 manns búi á búgarði söfnuðarins skammt frá Eldorado í Texas. Alls eru um 10.000 manns í söfnuðinum, búsettir í Arizona og Utah, auk Texas.

Söfnuðurinn klofnaði frá Mormónakirkjunni fyrir rúmri öld. Meginkenningarnar sem söfnuðurinn fylgir hljóða upp á að karlar verði að taka sér að minnsta kosti þrjár konur til að komast til himna, og að konur eigi að vera eiginmönnum sínum undirgefnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert