Mohamed Al Fayed vonsvikinn

Mohamed Al Fayed.
Mohamed Al Fayed. Reuters

Mohamed Al Fayed, faðir Dodi Al Fayeds, sem lést í bílslysi með Díönu prinsessu í París árið 1997, segist vonsvikinn yfir úrskurði rannsóknarkviðdóms, sem var birtur í London í dag.

Kviðdómurinn komst að þeirri niðurstöðu að andlát Díönu prinsessu og Dodis mætti rekja til gáleysis bílstjóra hennar og ökumanna ökutækja sem fylgdu bíl þeirra, og þess að Díana og Dodi voru ekki í öryggisbeltum. 

„Afhjúpun sannleikans um dauða Díönu og sonar míns Dodi hefur verið löng barátta," sagði Mohamed við fréttamenn fyrir utan hæstarétt í London og bætti við að úrskurðurinn hafi valdið vonbrigðum.   „Ég er ekki sá eini sem telur að þau hafi verið myrt.  Díana spáði því að hún yrði myrt og með hvaða hætti það yrði gert," sagði Mohamed. 

Mohamed hefur lengi haldið því fram að Dodi og Díana hafi verið myrt og hefur m.a sakað Philip prins og bresku leyniþjónustuna um að hafa átt þátt í andláti sonar síns og Díönu.  Mohamed segir niðurstöður rannsóknar frönsku og bresku lögreglunnar hafa verið rangar, og segir réttarrannsóknina sanna það. 

„Lögregla í Bretlandi og Frakklandi sagði þau hafa látist í slysi, en nú er niðurstöðum þeirra vísað á bug."   Mohamed segir kviðdóminn hafa úrskurðað að það hafi ekki einungis verið ljósmyndarar sem eltu Díönu og Dodi  heldur einnig óþekktar bifreiðar.   „Hverjir voru í bílnum og hvað þeir voru að gera í París er enn leyndardómur," sagði Mohamed.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert