Hugsanlegt að talning tefjist

Frá endurtalningu atkvæða í Domboshawa í nágrenni Harare, höfuðborgar Zimbabve …
Frá endurtalningu atkvæða í Domboshawa í nágrenni Harare, höfuðborgar Zimbabve í gær. AP

Formaður kjörstjórnar í Zimbabve segir hugsanlegt að endurtalning atkvæða í 23 kjördæmum taki meira en þrjá daga. Endurtalning atkvæða í forsetakosningunum sem fram fóru 29. mars var hafin í gær og var þá gert ráð fyrir að úrslit lægju fyrir innan þriggja daga. 

„Við sögðum upphaflega að það myndi taka þrjá daga að ljúka þessu en þar sem það hafa orðið tafir getur verið að þetta taki lengri tíma,” segir Utoile Silaigwana, formaður kjörstjórnar. „Þetta er ekki lítið verk og við viljum vera vissir um að ekki verði gerð nein mistök í þetta sinn.” Þá segir hann engar kvartanir hafa borist vegna framkvæmdar talningarinnar í gær, hvorki frá stjórnar né stjórnarandstöðuflokkunum. 

Mikil spenna er í sunnanverðri Afríku vegna ástandsins í Zimbabve og varaði Kofi Annan, fyrrum framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, við því í gær að komi til átaka þar sé mikil hætta á því að þau beiðist út til nágrannalandanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert